Hönnunarsprettur, í þetta skipti online!

author

Unnur Ösp Ásgrímsdóttir

Sérfræðingur í notendaupplifun
21. maí 2021
5 mín lestur

Hönnunarsprettur er frábært og áhrifamikið tól. Við vitum það vel, við sem höfum keyrt marga spretti og séð samhuga teymið galdra fram ótrúlega vel ígrundaða og kreatífa lausn. Vá, og stemmnningin sem myndast — hún er svo mögnuð að hún endist oft út verkefnið, enda allt teymið búið að skapa saman mjög skýra mynd af því hver stefnan er og á hverju hún byggir.

Er stemmningin og ávinningur hönnunarspretts háð því að teymið sé saman í rými, á sama stað?

Hvað ef það er bara ekki hægt? Hvernig er hægt að nýta aðferðir, reynslu og tól til þess að hámarka bæði stemmningu og ávinning þrátt fyrir að hönnunarsprettur eigi sér stað online?

Við hjá Norda létum veiruna ekki stoppa okkur í að keyra áfram hönnunarsprett þar sem okkar teymi ásamt Ísland.is, Advania og Fjársýslunni tók þátt í að skapa nýja umsókn fyrir Ísland.is. Óvissan var vissulega til staðar, mörg teymi að koma saman, margir sem ekki höfðu tekið þátt í hönnunarsprett áður, tímapressa á verkefninu, mismunandi þekking á stafrænum tólum og jú þetta þurfti að ganga upp online. Þetta gekk vonum framar og í raun svo vel að ýmist má nýta úr þessum spretti í komandi spretti!

Hvað lærðum við?

Undirbúningur. Online sprettir krefjast meiri undirbúnings, undirbúningur er hinsvegar alltaf af hinu góða og veitir öryggi til þeirra sem taka þátt.

Ice-breaker. Ice-breaker æfingar eru mikilvægur partur af hönnunarspretti þar sem fólk kemur saman sem þekkist ekki endilega vel. Á online sprettinum klufum við skjáinn og tindana þar fyrir aftan með æfingunni, vá ice-breaker æfing fór úr því að vera mikilvæg í nauðsynleg.

Látbragð. Skjárinn býr til fjarlægð og í hönnunarspretti er það eitthvað sem við viljum forðast, við komumst nær hvoru öðru með því að nota látbragð: “Þeir sem eru sammála, veifið” var t.d. mikið notað á sprettinum okkar og bjó til afslappað og hresst andrúmsloft.

Teymið. En stærsta áhættan í online hönnunarspretti er sú að fólkið týnist á bakvið skjáinn. Hér er ábyrgð þess sem stýrir sprettinum mikil og mikilvægi þess að passa að allir leggi eitthvað til málanna, segi sína skoðun, margfaldaðist.

Stafræn tól. Þegar fjölbreyttur hópur kemur saman online til að vinna hugmyndavinnu saman — fjarri postit miðum og sharpie pennum þá þarf eitthvað að koma í staðinn. Í þessum spretti settum við upp vel skipulagt Google Slides skjal til þess að koma hugmyndum frá okkur. Allir kunna á Google Slides. Allir kunna að copy og paste. Niðurstaðan: frábært tól sem hjálpar fólki að koma hugmyndum frá sér á skýran hátt, hjálpar þeim sem eru óöruggir að teikna og eykur nafnleynd — sem er klár kostur í allri hugmyndavinnu!

Online/offline. Þrátt fyrir að þessi sprettur var online hönnunarsprettur, fór talsvert af vinnunni fram offline. Hópurinn samanstóð af kjarnateyminu og svo öllu teyminu. Vinnan var ýmist unnin online, offline, með öllu teyminu og svo sumir partar einungis með kjarnateyminu. Offline vinnan var mjög markviss, djúp og kröftug, unnin eftir góðu skipulagi og að endingu var allt kynnt online. Það er virkilega mikilvægt að hleypa fólki offline, eða í minni spjallgrúppur, til þess að fá tækifærið að kafa ofaní ákveðið efni eða hugmynd án þess að vera við skjáinn.

Ég hlakka til að halda áfram keyra sprettina og þróa hinar ýmsu útgáfur sem henta best hverju verkefni fyrir sig 👏🏻

Hönnunarsprettur

Notendaupplifun