Sköpum eitthvað saman

Vertu í bandi

Kíktu á verkefnin sem við höfum unnið og hafðu samband, við erum með heitt á könnunni og kaldan í kælinum. Sendu póst, hringdu eða fylltu út þetta fallega form. Já svona form gerum við, stanslaust.

Takk fyrir að senda inn fyrirspurn, við verðum í sambandi :)

Úpsídeisíj... Eitthvað fór úrskeiðis, vinsamlegast reyndu aftur.

Vefverslun sem virkar í dag

Hvernig neytendur finna vörur, eiga í samskiptum við vörumerki og taka ákvarðanir um kaup hefur breyst mikið á síðustu árum. Við erum orðin vön því að sjá vörur á vef á myndum í góðri upplausn og að eiga auðvelt með að finna og kaupa vörur í símunum okkar. Í rauninni erum við orðin svo góðu vön að allt annað vekur upp tilfinningar um að síður sé ótraustar og verður til þess að fólk hættir við að versla. Þökk sé samfélagsmiðlum þá þurfa lítil fyrirtæki ekki lengur aðeins að reiða sig á leitarvélarbestun til að keppa við sér stærri samkeppnisaðila. En það er í mörg horn að líta, hvað er það sem góð sölusíða þarf að hafa?

 

Vera snjöll

Það er orðið mjög mikilvægt að síður virki á öllum skjám. Samkvæmt rannsóknum þá vill meirihluti neytenda frekar versla í gegnum síma eða önnur snjalltæki. Þegar þeir lenda á síðu sem virkar illa á snjallskjám þá eiga þeir til að hætta við og versla frekar við samkeppnisaðilann sem er með betri síðu. Google er líka farið að flokka síður sem eru ekki snjallvænar (e. responsive) sem lélegri sem þýðir að þær eru ólíklegri til að koma upp í leit heldur en snjallvæna síða samkeppnisaðilans.

 

Góðar upplýsingar um vörur

Ef viðskiptavinir þurfa að giska á hvað þeir eru að kaupa þá fara þeir annað. Upplýsingar þurfa að vera nákvæmar, skýrar og vel framsettar. Verið sem gagnsæust, setjið inn allar þær upplýsingar sem neytandinn gæti haft áhuga á, en sleppið öllum langlokum og óþarfa söluræðu í þeim texta. Hér er aðalatriðið að viðskiptavinurinn fái á tilfinninguna að þessi vara sem þú ert að bjóða sé akkúrat það sem hann hefur verið að leita að.

 

Sjónræn sala

Í dag þá er ekki til nein góð afsökun fyrir því að vera með of litlar eða of fáar myndir. Við erum orðin vön því að vera með skjái í hárri upplausn og neytendur vilja sjá vöruna vel áður en þeir kaupa. Þegar fólk verslar á netinu þarf það að fá á tilfinninguna að það geti fundið fyrir vörunni. Gott er að hafa myndir frá sem flestum sjónarhornum, svo má ekki gleyma að sýna mismunandi liti eða áferðir ef um slíkt er að ræða. Enn betra er að hafa myndbönd sem sýna vöruna í notkun. Myndböndin þurfa auðvitað að vera áhugaverð fyrir neytandann, en þau hvetja hann til að dvelja lengur á síðunni, það er það sem við erum alltaf að stefna á. Meiri tími á síðunni þýðir að Google lítur á síðuna sem góða síðu, hún færist hærra upp leitarvélarstigann og selur þar af leiðandi meira. 

 

Skýrar upplýsingar

Við sem neytendur erum orðin sjóuð í að leita uppi og lesa smáa letrið. Það hrindir mögulega kaupendur frá að hafa aðgengi að upplýsingum falið, svo sem hver sendingarkostnaður er, hvernig er hægt að ná í einhvern ef eitthvað kemur upp á, skilareglur og fleira. Settu upp flotta þjónustusíðu fyrir viðskiptavininn þar sem hann sér að það er hægt að nálgast fyrirtækið á einfaldan hátt og að það sé öruggt að versla við þig. Mikilvægt er að neytandinn finni að hann geti auðveldlega haft samband ef eitthvað kemur upp á, best er að hafa margar mismunandi leiðir til þess, til dæmis reit til að hafa beint samband, tölvupóstfang, síma eða netspjall, ef það á við og hentar þínu fyrirtæki. Best er að þessar upplýsingar sé að finna á öllum síðum neðst, efst eða til hliðar. Mundu að því dýrari vöru sem þú ert að selja, því mikilvægara er að viðskiptavinurinn treysti síðunni.

 

Einföld og fljótleg sala

Um leið og viðskiptavinurinn hefur ákveðið að kaupa vöruna þína þá viltu að hann greiði sem fyrst. Það eru mistök að setja upp síður sem krefjast þess að kúnninn skrái sig fyrst inn í vildarkerfi. Það er ekkert að því að hafa vildarkerfi fyrir fasta viðskiptavini, en þeir sem eru að koma í fyrsta sinn eiga að fá að þjóta í gegn, versla og fá vöruna sem fyrst. Öll aukaskref geta orðið til þess að fólk gefst upp. Reyndu að hafa ferlið sem fljótlegast og þægilegast, þannig er fólk búið að greiða áður en það nær að skipta um skoðun.

 

Dekraðu við fastakúnnana

Það er tilvalið að bjóða fólki að skrá sig í vildarklúbb þegar það hefur lokið kaupunum. Ef viðkomandi hefur mikinn áhuga á vörunni og sér fyrir sér að hann komi aftur á síðuna þá eru miklar líkur á að hann skrái sig sé boðið upp á það eftir á. Ef þú spyrð fyrirfram getur það orðið til þess að þeir sem eru í flýti fari út af síðunni og komi ekki aftur. Almennt eyða fastakúnnar nánast þrisvar sinnum meira en þeir sem eru að koma í fyrsta (og eina) sinn á síður. Rannsóknir benda til að fastakúnnar séu aðeins 15% viðskiptavina en hinsvegar sé einn þriðji innkomunar frá þeim.

 

Auðvelt að finna vörur

Fólk kemur líklega inn á síðuna þína til að finna eitthvað ákveðið. Ef þú ert með leitarglugga á augljósum stað þá getur viðskiptavinurinn fundið vöruna sem hann vantar strax. Því einfaldara sem er að finna og greiða fyrir vöruna, því meiri líkur eru á sölu.

 

Fjölbreyttar leiðir til að nálgast vöruna

Gott er að hafa nokkrar leiðir til að senda vörur. Hraðsendingar, hægari sendingar eða hugsanlega að bjóða fólki að sækja til þín. Það þarf að sníða sendingarmáta að hverju og einu fyrirtæki, en mundu að eitt hentar ekki öllum. Fólk er oft tilbúið til að greiða meira fyrir hraðari þjónustu, eða minna til að spara. Leyfðu viðskiptavininum að ráða.

 

Flott innkaupakarfa

Innkaupakarfan er mikilvæg síða. Hér þarf að vera einfalt að auka og fækka fjölda vara og jafnvel eyða þeim út. Það þarf líka að vera auðvelt að bæta einhverju í körfuna og fara síðan beint aftur að versla. Best er að hægt sé að bæta vörum í körfuna án þess að þurfa að fara í innkaupakörfuna, þannig getur viðskiptavinurinn haldið áfram að versla óáreittur þangað til hann er tilbúinn til að greiða. Mundu að sýna skýrt hver sendingakostnaðurinn er þegar komið er að því að greiða.

 

Sýndu skyldar vörur

Þegar þú ferð í matvörubúð og ætlar að versla nachos, þá eru ídýfur, krydd og allskonar annað sem tengist vörunni þar nálægt. Best er að hafa vefverslunina eins. Sýndu svipaðar vörur eða það sem á saman á sömu síðu, það eykur líkur á sölu.

 

Skýrir vöruflokkar

Aftur minnum við á að viðskiptavinurinn vill finna það sem hann er að leita að strax. Það þarf að vera einfalt að finna vöruflokka. Ekki hafa þó sérvöruflokk fyrir eitthvað sem þú ert aðeins með eitt eða tvö eintök af, reyndu að einfalda flokkunina en ekki hafa hana eins og frumskóg.

 

 

Fókusinn á réttum stað

Aðalmarkmið sölusíða er að selja. Það er auðvelt að týna sér í fallegri hönnun og öðru skemmtilegu. En mundu að vörurnar verða að vera í forgrunni, það eru þær sem eru mikilvægastar, allt annað kemur á eftir. Hönnunin verður að miða að því að sýna vörurnar sem best. Þeir sem hafa áhuga á hugmyndafræðinni þinni eða blogginu til dæmis munu finna það ef þú hefur sett upp einfalt veftré og góða leitarvél.

 

Samfélagsmiðlar

Það má ekki vanmeta áhrifamátt samfélagsmiðla. Síðan þín getur orðið svakalega vinsæl á samfélagsmiðlum ef þú leggur vinnu í þá og þannig fært þér traffík inn á síðuna. Til þess að svo geti orðið þá þarf að vera auðvelt að deila efni af síðunni þinni. Myndum þarf að vera hægt að deila á mjög einfaldan hátt, til dæmis með því að smella á ikon sem birtist við eða á myndinni. Það að fólk viti af þér er ómetanlegt og mun skila sér í sölu. Það þarf líka að vera auðvelt að finna hvernig er hægt að tengjast þér á samfélagsmiðlum.

 

Gefðu kost á umsögnum og stjörnugjöf

Það ætti ekki að koma á óvart að umsagnir og stjörnugjöf auka sölu. Hinsvegar kemur kannski á óvart að meirihluti umsagna sem gefnar eru fá fullt hús stjarna. Raunin er sú að við ættum að hætta að hafa áhyggjur af slæmum umsögnum, það er mikilvægara að það séu umsagnir til staðar heldur en fullkomin 5 stjörnu ferilskrá. Við vitum líka að neikvæðar umsagnir geta haft jákvæð áhrif.

 

Lýsandi lýsingar

Eflaust færðu lýsingu á vörunni senda frá framleiðanda, en ekki þýða beint þurran texta. Það borgar sig að hafa allar lýsingar einfaldar og skýrar, ekki of snubbóttar en heldur ekki eins og ritgerðir. Settu þinn eigin brag á textann svo hann falli að þínu vörumerki.

 

Netöryggi

Viðskiptavinurinn þarf að finna að þú rekur alvöru fyrirtæki. Hann er að treysta þér fyrir kreditkorta- og persónuupplýsingum sínum og verður að vita að hann er að versla við öruggt fyrirtæki. Sýndu upplýsingar um að síðan sé traust.

 

 

Að lokum

Auðvitað viljum við flotta síðu sem endurspeglar vörumerkið, en við verðum að hafa í huga að það mikilvægasta er að selja. Upplýsingar um vörur og fyrirtækið þurfa að vera skýrar og auðvelt að finna. Traust er það mikilvægasta í netverslun í dag. Það er ekki hægt að neita því að farsímar og önnur snjalltæki eru að breyta vefverslun og að umsagnir hafa áhrif á það hvað fólk kaupir. Síður þurfa að vera snjallvænar og innkaupferlið þarf að vera hratt en þó þarf viðskiptavininum að líða eins og hann viti allt sem hann þarf um vöruna og fyrirtækið til að hann treysti því fyrir persónuupplýsingum sínu.

 

Orri Guðjónsson @orrisg Þessi grein er skrifuð af